mánuður myndlistar 2018 1.- 31.október

Samband Íslenskra myndlistarmanna stendur fyrir verkefninu en Katrín Helena Jónsdóttir er verkefnastjóri.

Mánuður Myndlistar er vettvangur til að kynna starf myndlistarmanna fyrir almenningi,  gera fagið aðgengilegra öllum ásamt því að auka umræðu um myndlist og myndlistarmenn.

 
 
 
mynd_katrin.jpg

ávarp verkefnastjóra

Þá er komið að því, Mánuður Myndlistar 2018 er genginn í garð!

Í ár standa aðstandendur Mánaðar Myndlistar fyrir töluverðum breytingum á verkefninu, en hið augljósa er nýtt nafn; áður hét Mánuður Myndlistar, Dagur myndlistar. Nýju nafni fylgir nýtt útlit og fengum við til liðs við okkur hönnuðinn Ólaf Þór Kristinsson sem hannaði nýtt vörumerki og allt útlit verkefnisins sem birtist á samfélagsmiðlum, plakötum og víðar.

Fleiri nýjungar má finna hér á heimasíðunni en samstarf við Borgarbókasafnið er eitt af stóru liðunum í verkefninu í ár. Verk í Vinnslu er verkefni sem Bára Bjarnadóttir og Vala Sigþrúðar Jónsdóttir standa fyrir undir formerkjum Mánaðar Myndlistar í samstarfi við Borgarbókasafnið. Verkefnið mun eiga sér stað í Gerðubergi en þar verða listamenn með opnar tímabundnar vinnustofur þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér starf myndlistarmanns á vinnustofu sinni. Frekari upplýsingar má finna hér.

Ein stærsta viðbótin við Mánuð Myndlistar í ár er Torg, Listamessa í Reykjavík en hún verður haldin aðra helgina í október og er öllum opin sem sölu- og kynningarvettvangur myndlistarmanna. Þú getur lesið allt um Torg hér.

Ríkisútvarpið mun taka virkan þátt í Mánuði Myndlistar og flytja vikulega pistla eftir ólíka einstaklinga í samfélaginu um myndlist. Pistlarnir birtast hér á heimasíðunni undir greinar.

Fastir liðir eru að sjálfsögðu skólakynningarnar en í ár munu ríflega 30 grunn- og framhaldsskólar um landið fá kynningu listamanns til sín þeim að kostnaðarlausu. Skólakynningarnar eru mikilvægur hluti af dagskrá Mánaðar Myndlistar þar sem að börn og ungmenni fá tækifæri til að kynnast listamönnum og störfum þeirra og vonandi opnast einhver augu fyrir skapandi framtíðarstarfi, að minnsta kosti eykst skilningur á faginu og starfsstéttinni.

Innlit í vinnustofur eru á sínum stað hér, en viðtölin birtast vikulega hér á heimasíðunni og samfélagsmiðlum.

Við hvetjum þig til að fylgjast með dagskránni í ár og taka virkan þátt í þeim viðburðum sem þér þykja spennandi.

Gleðilegan Mánuð Myndlistar!

Katrín Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri Mánaðar Myndlistar 2018