ofeigar.jpg

dagar myndlistar í október

markús þór andrésson

 
 
 

Dagar myndlistar í október

Ég var í matarboði um daginn, sem ekki væri í frásögu færandi. Á meðal gesta voru roskin hjón sem hafa lifað og hrærst í hinum alþjóðlega listheimi alla sína tíð. Við vorum þarna nokkrir statistar úr íslensku menningarlífi, eins og gerist og gengur. Skipst var á skoðunum um allt og ekkert og kvöldið leið áreynslulaust eins og fjölmörg önnur í góðum félagskap. Svo kom að augnabliki þar sem skyndilega var eins og geimverur hefðu lent í veislunni. Útlendu hjónin hjuggu á hjalið, kvöddu sér hljóðs og horfðu í augun á öllum. Konan spurði hvað í ósköpunum þetta ætti allt saman að fyrirstilla? Hvað okkur gengi til, bláókunnugum, að verja saman þessari kvöldstund? Fátt varð um svör og hún svaraði sjálfri sér með hugleiðingu um gagnkvæma forvitni, ást og  trú á myndlist. Karlinn tók undir og talaði um líf í stöðugri óvissu, einyrkjana sem sem legðu allt undir skilyrðislaust og stæðu og féllu með listinni. Hvað það væri mikilvægt að halla sér hvert að öðru og finna stuðning af frá fleirum sem taka slíka áhættu, allsstaðar í heiminum. Okkur Íslendingana rak í rogastans, voru þetta ekki „selvfölgeligheder” sem ekki er orð á hafandi? Væmni! En eftir á að hyggja vakti þetta mann til umhugsunar. Þessa lítilsháttar uppákomu hefði mátt afgreiða sem innantómt elítu sjálfhól, eða hvað? Af hverju ekki? Hvenær nemum við staðar hér í okkar litlu listahringekju á gamla landinu, milli opnana, fyrirlestra, vinnustofubrölts, fréttatilkynninga og umsókna og spyrjum okkur þessara spurninga? Setjum niður fyrir okkur af hverju við erum að þessu? Ekki þarf að fjölyrða um veraldlegan ávinning, en hvað með allt hitt? Hvert og eitt okkar sem á annað borð nennir þessu basli gæti notað október – daga myndlistar – til að spá í þetta; spurt sjálf okkur og ámálgað við starfsfélaga. Horfumst í augu stundarkorn og minnum hvert annað á að það er fleira sem sameinar okkur en sundrar; hvert með sínum hætti höfum við valið að standa saman vörð um mjög sérstakt fjöregg sem er myndlistin. Pínu vandræðalegt – en í nóvember getum við síðan aftur brett upp kragann, sett hausinn undir okkur og öslað í gegnum slydduna á milli opnana eins og ekkert hafi í skorist.

Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri