ofeigar.jpg

Dagar myndlistar

Sigrún inga hrólfsdóttir

 
 
 

Spekúlantinn á degi myndlistar

Á dögum myndlistar er við hæfi að mæla fram hugleiðingu um fyrirbærið myndlist. Fyrirbæri sem er ekki afmörkuð deild í heiminum, heldu smýgur um alla veruna, okkar huglæga og hlutlæga veruleika og  gerir það þess virði að gefa að honum gaum.

Allar manneskjur eru skapandi og listrænar. Á meðan það verða til manneskjur þá verður til list. Þannig að það er óþarfi að hafa miklar áhyggjur þannig séð af framtíð listarinnar. Listin er jafngömul vitundinni og mun aldrei deyja. Heimurinn breytist hinsvegar. Efnisveruleikinn er að breytast með auknu vægi hins stafræna. Hugsanlega mun kapítalískt hagkerfi einsog við þekkjum það líða undir lok. En listin mun aldrei líða undir lok.

Listsköpun er grunneigind þess að vera manneskja. Hún er minning mannkynsins og tjáning á sama tíma. Og þar er að finna samhengi. Í svo stóru samhengi eru nokkrir dagar ekki langur tími. En Dagar myndlistarinnar er engu að síður til hér á Íslandi og nú fögnum við þeim.  Á dögum myndlistar er gott að huga aðeins að þessu og huga að myndlistinni, mömmu allrar sjónrænnar miðlunar, og hvernig hún gegnsýrir tilveru okkar.

List er konkret framsetning á því sem er ósýnilegt og óáþreifanlegt en er samt til. List er samspil ytri og innri veruleika. Vitundin og allur sá galdur sem hún er, dýpt mennskunnar og tilverunnar sem heildar er endurspegluð í gegnum listir. Til þess að kafa dýpra í þetta flókna samspil er nauðsynlegt að veita athygli þeim ferlum sem búa í hinni skapandi atburðarás. Línuleg rökhugsun endurspeglar ekki heiminn sem heild og dugar því ekki ein og sér.

Til þess að vinna úr óreiðunni sem lífið er grípum við til listarinnar. Hún er leið til að henda reiður á öllu ruglinu. List er ekki óskiljanleg, það er heimurinn sem er óskiljanlegur.

Rannsóknir á sviði frumsköpunar í listum eru tiltölulega nýjar af nálinni. Því þó að listsköpun sé ávallt á einhvern hátt rannsókn, þá er það nýlunda að reyna að ná utan um það heildarferli sem liggur að baki þeim niðurstöðum sem listaverk eru.

Slíkar rannsóknir eiga án efa eftir að leiða margt í ljós um vitundina, efnið, eðli skapandi hugsunar og verundina sem slíka. Og þannig munu þær hafa gríðarlega mikil áhrif innan rannsókna almennt. Þegar aðferðum listanna er beitt á margvíslegum sviðum mun margt opnast og breytast.

Að búa til listaverk er að vinna með efni og hugmyndir og átta sig á því hvernig hlutir verða til. Það er mikilvægt að opna augu okkar fyrir því hvernig hlutir og hugmyndir verða til, ef við viljum vera virkir gerendur en ekki eingöngu óvirkir þiggjendur þess sem aðrir búa til. Í gegnum listir kennum við sjálfum okkur ræktun. Hvað það er að kúltivera. Að vinna að hugmynd og koma henni í framkvæmd. Að skoða ferla í samhengi. Þetta er inntak listanna og í leiðinni finnur manneskjan leið til þess að skapa sjálfa sig einsog hún vill vera og það umhverfi sem hún vill búa í.

En höfum þó hugfast að listin er ekki samfélagsþjónn né hjálparstofnun. Myndlistin er og hún þjónar ekki. Hvorki tilgangi né öðru. Listin verður ekki metin útfrá hinum fjárhagslega ávinningi sem er einn af hinum stórkostlegu en jafnframt óhjákvæmilegu aukaverkunum hennar. (Og takið eftir, sá ávinningur er gríðar mikill). Listin er afl í sjálfu sér og birtist á öllum sviðum í allra kvikinda líki. Hún er óvænt en jafnframt óvægin og óþægileg. Þegar vel tekst til opnar listin sár í raunveruleikann sem gerir það að verkum að við skynjum nýjan sannleika.

Vegna þessa eigum við að setja miklu meiri fókus og miklu meiri orku og fjármuni í listir. Allstaðar. Á öllum sviðum. Og hafna þeirri ranghugmynd að list sé einhverskonar munaður sem hægt er að neita sér um. Það á að borga listamönnum. Svo að þeir geti unnið. Það á að leyfa börnum að búa til mikið af list. Svo þau öðlist skilning. Og það á að dæla peningum í stofnanir sem stússast í listum. Til að bjarga lífi okkar og búa lífið okkar til.

Sigrún Inga Hrólfsdóttir, myndlistarkona