Ingi Thor.jpg

Heimsborgarinn okkar, listalífið og íslensku sendiráðin

ingi Thor jónsson

 
 
 

heimsborgarinn okkar, listalífið og íslensku sendiráðin

Ísland starfrækir 26 sendiskrifstofur í 21 ríki, þar af 17 sendiráð, 5 fastanefndir og 4 aðalræðisskrifstofur (sjá nánar á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands).

Undanfarin ár hefur íslenskt listalíf kvatt sér hljóðs víða um heim, enda eigum við einstakt fólk í öllum listgreinum sem hefur bæði heillað heimsbúa og aukið ferðamannastraum til landsins.

Eftir að hafa starfað við margbreytilegar kynningar á íslenskum listviðburðum erlendis síðastliðin 30 ár, tel ég að það séu enn fleiri tækifæri til að efla samstarf Íslands við erlenda aðila og þá sérstaklega í öflugra samstarfi við íslensku sendiráðin um allan heim. Þar sem aðsetur sendiráðanna eru í höfuðborgum landanna þá hefur tilhneigingin verið sú að halda viðburði í þeim borgum og oftar en ekki höfum við mest náð til samlanda okkar en minna til erlendra listunnenda. Nú er það orðið svo að flestar höfuðborgir heims eru fullmettaðar af alls kyns viðburðum og því spurning að líta til annarra borga því víða er margt spennandi og nýtt að gerast sem væri gaman að taka þátt í. Við megum nefnilega ekki gleyma því að þrátt fyrir setur íslenskra sendiráða í höfuðborgum heimsins á starfsemi þeirra að sinna öllu landinu sem þau dvelja í.

Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri NICE (Nordic Intercultural Creative Events) 2006-2018 átti ég mjög gott samstarf við sendiráð allra Norðurlandanna í London og víðar, en sá fljótt að vöntun væri á samvinnu og kynningu á íslenskri list og viðburðum í öðrum borgum en bara höfuðborg hvers lands. Þegar sendiherra heimsækir borgir með sínu fríða föruneyti hefur það oft mjög jákvæð áhrif, enda eru honum allar dyr opnar rétt eins og hverjum öðrum ráðherra, jafnvel þjóðhöfðingja. Samkvæmt reynslu minni gætu kynningarmiðstöðvar og listamenn nýtt sér þetta samstarf enn betur, fundið borgir sem eru með ferska strauma í listalífinu, og með sendiherra á bak við verkefnið opnast dyr að fleiri samvinnuverkefnum og um leið sjóðum og styrkjum.

Vegna þess hve vel uppfærslan á NICE gekk og samstarfið við aðrar borgir en bara höfuðborgir, ákváðu forsvarsmenn Liverpool tvíæringsins (2010-2012-2014) að taka sér hana til fyrirmyndar og innan hátíðarinnar var útbúið fyrsta City States verkefnið. Þar tóku öll sendiráð Norðurlandanna ásamt 25 öðrum sendiráðum þátt, auk þess sem ferðamálstofnanir allra landanna, nema Íslands, komu að verkefninu með skemmtilegum hætti. Samstarfið varð gjöfult og alls kyns möguleikar opnuðust á enn frekari samvinnuverkefnum og erlendum sjóðum hér og þar. Hvernig gætum við til dæmis fengið ferðaþjónustuna á Íslandi til að sjá möguleikana sem liggja í svona samstarfi og átta sig á mikilvægi kynningar listamanna frá Íslandi sem myndi kveikja ennþá meiri áhuga á landinu okkar? Hvernig gengur til að mynda Iceland Naturally verkefnið og hvað hefur það gert fyrir íslenska listamenn?  Hvað er og verður um Nordic Matter sem var í London 2017, þar sem stærsta menningarstofnun Breta hafði heilsárs fókus á norræna list? Hver er eftirfylgnin? Arfleiðin?

Sendiherrar opna leiðir í kynningar, samvinnuverkefni og sjóði sem aðrir geta ekki, þeir fá fundi við toppana, þeir geta rætt við þá og fá beina leið til framkvæmdastjóra helstu safna og listastofnana í hverju landi fyrir sig, og það að ná svo þéttriðnu neti er afskaplega mikilvægt hvernig sem á það er litið. 

Mér finnst kominn tími til að stilla saman strengi og gera hið góða samstarf við íslensk sendiráð erlendis enn betra og tengja saman á málþing utanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Íslandsstofu til að tala um framtíð íslensk listalífs á erlendri grundu. Ræðum möguleikana, heyrum í ríkisstofnunum, styðjum hvert annað, vinnum saman. Öll erum við að vinna að sama markmiði þótt forsendur sé ekki alltaf þær sömu. Eflum heildrænt samstarf og finnum saman fleiri tækifæri og nýtum þá möguleika sem við þegar höfum – eins og samstarfið við sendiráðin. Á öllum mínum ferli hef ég enn ekki hitt sendiherra sem brennur ekki fyrir því að kynna listamenn síns lands eða að taka á móti nýjum straumum og stefnum frá öðrum löndum.

Ingi Thor Jónsson
Markaðs og þjónustustjóri Listasafn Íslands.