42906168_245179939504349_2144984037163270144_n (1).jpg

drengurinn fengurinn

Brynjar jóhannesson

 
 
 

Drengurinn fengurinn

Drengurinn fengurinn er listamaður sem klæðist höfuðpoka með þremur spurningamerkjum í sköpun sinni, hvort sem hún felst í gjörningalist, myndbandsverkum eða í tónlistarsköpun. Á Plan-B Art Festival, sem haldið var á Borgarnesi í ágúst á þessu ári, voru tvö verk eftir Drenginn, annars vegar myndbandsverk og hins vegar gjörningur. Gjörningarkvöld Plan-B fór fram í gripalausu fjósi stutt frá Borgarnesi.

Drengurinn segir, í gjörningi sínum, sögu af því að hafa spilað tölvuleikinn Need for Speed 3: Hot Pursuit sem barn. Að pabbi hans hafi komið upp að honum, spurt hann hvað hann væri að gera og jafnvel viljað prufa sjálfur. Drengurinn lýsir spennunni yfir því að pabbinn hafi loksins sýnt þessari iðju drengsins áhuga. Svo hafi síminn hringt og pabbinn verið kallaður í útkall. Drengurinn spilar tónlist úr leiknum á Playstation tölvu sem tengd er við túbusjónvarp, klæðir sig í brynjulegan mótorhjólagalla og spilar svo lag um hvað honum þykir vænt um pabba sinn á bleikann rafmagnsgítar.

Sagan er sögð frá barnslegu sjónarhorni með viðbættri vitund hins fullorðna, sem mér finnst einkenna þau verk Drengsins sem ég hef séð. Hann lýsir spennunni og segist svo í beinu framhaldi reyna að elska allt fólk, en að hann eigi mjög erfitt með að elska fólk sem hringir í rafveituna eftir venjulegan þjónustutíma og neyðir mömmur eða pabba einhvers til þess að mæta í útkall.

Ég á oft frekar erfitt með einlægni í ljóðlist, og svo sem öðrum bókmenntagreinum. Að vissu leyti er það krafan um einlægni sem ég hef orðið var við. Ég hef heyrt bækur gagnrýndar fyrir að koma ekki frá einlægum stað í hjarta höfundar, hef heyrt skáld tala um að það geti ekki lengur lesið eldri ljóð sín upp því þau eru ekki lengur sönn, þeim líði ekki lengur eins og í ljóðunum. Hef fylgst með því hvernig einlægum pólitískum ljóðum er deilt og þau lofuð af því að allir tengja svo mikið og eru svo sammála þótt textinn sé illa skrifaður og ofhlaðinn. Ég hef heyrt skáld lesa upp einlæg ljóð um persónulega harma sína, dauðsföll í fjölskyldum, ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir og sjálfsmorð ástvina og hef verið minna hrærður en eftir lestur á greinum á DV um svipuð mál. Ég er ekki mótfallinn því að fólk skrifi ljóð um harmleiki sína, en það verður að vera eitthvað meira. Einhver sammannleg víkkun á viðfangsefninu. Mér finnst þetta líka eiga við um aðrar listgreinar, einlægnin virkar best ef hún er í samtali við eitthvað annað.

Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að verk Drengsins heilluðu mig. Hann vinnur með einlægnina og kemst upp með það. Hún er að mínu mati kjarni verka hans. Einlægni sem nær til mín. Sem kemst í gegnum töffaraskapinn. Þetta er einlægni í bland við myndræna framsetningu sem er á vissan hátt andhverfa hennar.

Fyrir það fyrsta er Drengurinn fengurinn alltaf með áðurnefndan höfuðpoka með teiknuðum spurningarmerkjum og reiðilegum augabrúnum. Pokinn er nokkuð illilegur og, eðli sýnu samkvæmt, hyljandi. Ef augun eru gluggi sálarinnar hlýtur höfuðpoki að vera gluggatjöld. Eitthvað til þess að fela sig á bak við. Þrátt fyrir gluggatjöldin er textinn sem Drengurinn flytur afhjúpandi og býður hverjum sem er að koma nær og tengja. Saga Drengsins um pabbann er sett fram á fyndinn hátt, drengurinn endurtekur til dæmis nafnið á tölvuleiknum, Need for Speed 3: Hot Pursuit óþarflega oft, sem skapar einhvern skondinn rytma. Þrátt fyrir, eða kannski frekar, vegna kímninar, nær sagan í gegn og ég fer að hugsa um sambandið við föður minn. Ég hleypi textanum nær vegna þess að ég býst ekki endilega við sönnu einlægu augnablikunum af svona fyndnum hauspokamanni.

Ásamt höfuðpokanum klæddi Drengurinn sig í mótorhjólaleðurbrynju. Illilega andlitið á pokanum og brynjan eiga það sameiginlegt að segja heiminum að passa sig, að sá sem þessu klæðist sé sko hættulegur. Töffleiki eins og hann er í augum barns. Eins og eldingamerki og hauskúputattú. Enn og aftur er þarna nauðsynleg togstreyta. Andstæður sem sameinast. Litli drengurinn sem sameinast vonda kallinum í höfuðpokanum og mótorhjólatöffaranum. Litli drengurinn einn og sér er ekki nógu varinn til þess að segja okkur sögu sína en með brynjunni er honum kleyft að ná til okkar sem viljum líka bara að pabbar okkar eyði með okkur tíma og sýni því sem við gerum áhuga, hinum megin við töffaraskapinn.

Brynjar Jóhannesson, skáld