pawel.jpg

list sem afsprengi bókhalds

pawel Bartoszek

 
 
 

List sem afsprengi bókhalds

„Ég sé fyrir mér að það sé markaður fyrir svona fimm tölvur,“ á Thomas Watson, forstjóri IBM, að hafa sagt árið 1943. Spádómur þessi reyndist það vondur að hann er eiginlega góður, hann hefur allavega fengið að lifa.

Það eru að minnsta kosti níu sjálfstæðar tölvur þar sem ég sit: fartölvan, síminn, spjaldtölvan, snjallúrið, tveir flatskjáir, tengibox, þráðlaus hátalari og gamaldags reiknivél. Allt í innan við eins metra fjarlægð.

Ætli reiknivélin komist ekki næst því að vera tölva eins og forstjórinn sá þær fyrir sér: vél sem framkvæmir útreikninga hraðar og nákvæmar en manneskja. Eins og bókhaldari sem þreytist aldrei. Öll hin tækin eru þarna í einhverjum allt öðrum tilgangi. Þau koma í stað síma, sjónvarps, útvarps, plötuspilara, bókaskáps. Og þótt flest tækin séu líka upprunalega hugsuð með hagnýtt gildi í huga eru þau oftar en ekki nýtt í þágu einhvers allt annars.

Þannig hefur þetta verið frá örófi alda. „Tekið var á móti 29,086 einingum af byggi, yfir 37 mánaða tímabil. Kúsjím.“ Svona hljómaði ein fyrsta setningin á ritmáli sem við höfum ráðið. Maður að kvitta fyrir móttöku korns. Fyrstu ritmálin voru gjarnan samsett af táknum sem gátu einungis komið hluta málsins til skila. Einhvers konar bókhaldsmál. Excel síns tíma. Það var ekki fyrr en seinna sem fólk fór að festa sögur á blað.

Og ef við hugsum um það þá er þetta rökrétt. Við erum ágæt í því að muna sögur. Við getum öll farið aftur til æsku okkar og rifjað upp einhvern atburð, einhverja daga, hverjir komu, hvað hver og einn sagði, og hvernig okkur leið með það. Og við erum ágæt í að endursegja þetta. Jú, við kryddum og skreytum en samhengið helst. En gömul númer, gamlar tímasetningar funda, gömul verð, það er allt horfið. Það er þar sem við þurfum hjálp.

Og ekkert er erfiðara að muna en þegar maður skuldar pening. Hvort voru það 12.500 eða 12.900 kr. sem ég fór yfir á reikningnum? Var ég búinn að borga Brynju? Og hvað lét ég Kúsjím aftur hafa mikið af byggi?

Sagan getur stundum valdið vonbrigðum. Einhver snillingur tók sig til og réð hið dularfulla línuletur B sem finnst á leirtöflum á Krít. Niðurstaða: Þetta voru allt töflur sem lýstu stöðu vörulagers. Línuletur A er enn óleyst. Allir vonast eftir krassandi lýsingum af fólki og atburðum liðins tíma. En ætli þetta séu ekki aðallega bara líka ársreikningar og gamlar skattskýrslur?

Hvorki stafrófið né tölvan voru sköpuð með listir eða afþreyingu í huga. En listirnar og afþreyingin voru það sem ýttu þessum tækniframförum áfram, tóku þau frá fámennum hópum sérfræðinga og dreifðu ávöxtunum til stærri hóps. Ástæða þess að Thomas Watson sá ekki fyrir sér þörfina fyrir fleiri en sjö tölvur er að hann sá ekki fyrir sér að fólk myndi nota tölvur til að streyma Game of Thrones og slúðra um fólk.

Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina. En það getur samt verið gaman að reyna. Ég legg því til stutta hugartilraun: Hvaða tækni sem nú er að slíta barnskónum mun verða mjög útbreidd eftir 100 ár, en ekki vegna hagnýts gildis heldur vegna þess að einhverjum datt í hug að nýta hana í eitthvað sem gleður fólk? Genafræði? Kjarnasamruni? Skammtatölvur? Eitthvað annað?

Til hamingju með Dag myndlistar.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar